Fara í efni

Hammondhátíð haldin í 16. skipti

24.04.2024 Fréttir Djúpivogur

Hammondhátíð Djúpavogs verður sett í 16. skipti nú á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl.

Þessi rótgróna hátíð sem var fyrst haldin árið 2006 hefur rækilega fest sig í sessi sem ein af metnaðarfyllstu tónlistarhátíðum landsins. Hún er alltaf sett á sumardaginn fyrsta og þá hefst fjögurra daga tónlistarveisla.

Í ár munu Eyþór Ingi og Babies setja hátíðina á fimmtudagskvöldi þegar þeir flytja hina óviðjafnanlegu tónlist Þursaflokksins.

Föstudagskvöldið ber yfirskriftina "Prinsinn heim" en þar verður blásið til allsherjar afmælisveislu til heiðurs minningu Svavars Péturs Eysteinssonar, Prins Póló. Þar mun Hirðin sjá um dagskrána frá A-Ö. Hirðina skipa Valdimar Guðmundsson, Lay Low, Benni Hemm Hemm, Borko, Svanhildur Lóa og Örvar Smárason. Kynnir er engin önnur en Sandra Barilli.

Á laugardagskvöldið koma svo fram Austfirðingurinn Aldís Fjóla ásamt hljómsveit og hin goðsagnakennda rokkhljómsveit HAM.

Lokatónleikar hátíðarinnar fara fram í Djúpavogskirkju á sunnudeginum en þar stígur á stokk hin eina sanna Bríet, ásamt Tómasi Jónssyni og Ómari Guðjónssyni.

Miðasala er á midix.is en þar má bæði kaupa heildarpassa og miða á staka tónleika.

Frá miðvikudegi til sunnudags er svo fjöldinn allur af utandagskrárviðburðum, sú dagskrá er einstaklega glæsileg og fjölbreytt í ár.

Það má einnig finna upplýsingar um hátíðina sjálfa á facebook síðunni Hammondhátíð Djúpavogs og viðburðarsíðunni Hammondhátíð 2024.

Nýtt merki Hammondhátíðar eftir Vilhjálm Warén
Nýtt merki Hammondhátíðar eftir Vilhjálm Warén
Getum við bætt efni þessarar síðu?