Fara í efni

Aðalskipulag Múlaþings 2025-2045

Undirbúningur við fyrsta heildstæða aðalskipulag Múlaþings hófst í ársbyrjun 2023 og er vinnan komin vel á veg en um þessar mundir er fyrsti fasi af þremur í opnu kynningarferli í gegnum SkipulagsgáttHægt er að fylgjast með fundarbókunum tengdum ferlinu hér - 202208083 - Aðalskipulag Múlaþings

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings fer með leiðandi hlutverk í gerð nýs aðalskipulags. Skipulagsráðgjafi við vinnuna er EFLA verkfræðistofa og myndar, ásamt starfsfólki umhverfs- og framkvæmdasviðs, stýrihóp um verkefnið. Í hópnum sitja eftirfarandi starfsmenn sveitarfélagsins: 

  • Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri
  • Sigurður Jónsson, skipulagsfulltrúi
  • Sóley Valdimarsdóttir, verkefnastjóri skipulagsmála

Fyrirspurnum skal beina til verkefnastjóra skipulagsmála á netfangið skipulagsfulltrui@mulathing.is

Skipulagsferlið

Skipulagsferli nýs aðalskipulags er skipt upp á þrjá fasa:

  1. Skipulags- og matslýsing,
  2. Vinnslutillaga og
  3. Tillaga.

Hver fasi verður kynntur í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar þar sem íbúum og hagsmunaaðilum gefst færi á að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum. Gert er ráð fyrir íbúa- og vinnufundum síðar á árinu 2024.

1. Skipulags- og matslýsing

Kynningafundur um skipulagslýsinguna var haldinn 18.janúar 2024 og var honum streymt á miðlum Múlaþings. 

Ákveðið var að hafa fundinn eingöngu í streymi, ekki síst vegna árstímans (óútreiknanlegt veður með tilheyrandi samgönguröskunum) en einnig á þeirri forsendu að á þessum tímapunkti er áherslan á að kynna það sem framundan er, skipulagsferlið og hvernig þátttöku íbúa verður háttað. Stefnt er að íbúafundum í hverjum kjarna þegar líður á skipulagsvinnuna þar sem vonast er eftir líflegum umræðum og þátttöku íbúa.

Upptaka af kynningafundi.

2. Vinnslutillaga

Áætluð kynning vor 2025.

3. Tillaga

Áætluð auglýsing haust 2025.


Verkefnavefur

Settur hefur verið upp verkefnavefur sem ætlað er að halda utan um og kynna skipulagsvinnuna á verktíma. Hér fyrir neðan er stutt kynningarmyndband um vefinn.


Verkefni samhliða gerð nýs aðalskipulags

Samhliða gerð nýs aðalskipulags liggur fyrir sveitarfélaginu að vinna að flokkun landbúnaðarlands, með tilliti til hversu vel landið er fallið til akuryrkju, og skrá vegi í náttúru Íslands. Unnið verður að skráningu þessara verkefna í gegnum verkefnavef aðalskipulagsins þar sem íbúar geta sent inn ábendingar um einstök atriði í gegnum kortasjá.

Skráning vega í náttúru Íslands

Lengi hefur ríkt óvissa um vegakerfi í óbyggðum, þ.e. hvaða leiðir er heimilt að aka, hvar er um að ræða utanvegaakstur og hver tekur ákvarðanir um slíkt vegakerfi. Með náttúruverndarlögum sem tóku gildi árið 2015 og reglugerð sem sett var á grundvelli þeirra árið 2018 hefur verið fest umgjörð um það hvernig standa skal að ákvörðunum um vegakerfi í náttúru Íslands, þ.e. um aðrar ökuleiðir utan byggða en þær sem tilheyra þjóðvegakerfinu. Það er á ábyrgð sveitarstjórna að ákveða slíkar ökuleiðir og taka saman í skrá yfir vegi í náttúru Íslands, aðra en þjóðvegi. Vegaskráin skal unnin samhliða gerð aðalskipulags eða eftir atvikum svæðisskipulags.

Með vegaskránni verður til heildstæð skráning yfir vegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil, með eða án takmarkana. 

Leiðbeiningar Skipulagsstofnunar um skráningu vega í náttúru Íslands

Flokkun landbúnaðarlands

Landbúnaðarland sem er vel fallið til ræktunar matvæla og fóðurs er verðmæt auðlind. Sé þörf á að á að viðhalda og efla matvælaframleiðslu eða aðra ræktun er mikilvægt að slíku landi sé ekki ráðstafað til annarra nota, en töluverð samkeppni ríkir um land. Sveitarfélög hafa tækifæri til að vernda gott ræktunarland við aðalskipulagsgerð en til þess að það sé raunhæft þarf að vera búið að flokka land, þannig að ljóst sé hvar gott ræktunarland er að finna.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf út  leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands en í þeim er horft til stefnu stjórnvalda eins og hún birtist í  jarðalögum og gildandi  landsskipulagsstefnu. Auk þess í lögum um  náttúruvernd, lögum um  landgræðslu, lögum um skóga og skógrækt og  skipulagsreglugerð

Áhersla er á að flokka land sem nýtist til ræktunar á matvælum og fóðri í fjóra flokka út frá ræktunarhæfni: mjög gott, gott, sæmilegt og lélegt ræktunarland. Niðurstöðum flokkunarinnar er ætlað að nýtast sem forsenda við stefnumörkun um landbúnaðarand við gerð aðalskipulags.

Síðast uppfært 08. apríl 2024
Getum við bætt efni þessarar síðu?